Saturday, February 08, 2003

Lasagne

Fyrir 4-6
Margir eiga sína uppáhaldsuppskrift af lasagne. Hér kemur ein alveg sígild.

200 g lasagne plötur

Kjötsósa:

1 msk. olía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksrif, pressuð
500 g nautahakk
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 lítil dós tómatmauk (purée u.þ.b. 2 msk.)
1 tsk. sykur
1 tsk. basilikum
½-1 tsk. óreganó
1 tsk. jurtasalt

Hitið olíuna á djúpri pönnu. Mýkið laukinn í olíunni og bætið hvítlauknum út í. Setjið hakkið saman við og hrærið vel á meðan það brúnast. Hellið tómötunum saman við ásamt tómatmaukinu, sykrinum og kryddinu. Sjóðið sósuna við meðalhita þar til hún þykknar. Útbúið ostasósuna á meðan.

Ostasósa:
30 g smjör
2 ½ msk. hveiti
5 dl mjólk
150 g bragðmikill ostur
¼ tsk. múskat (má sleppa)

Bræðið smjörið og setjið hveitið út í. Búið til jafning með því að þynna smátt og smátt með mjólkinni og hræra vel í á meðan. Látið sósuna krauma í 2-3 mínútur. Takið pottinn af hitanum og bætið ostinum og múskatinu út í.

Setjið nokkrar matskeiðar af ostasósu í smurt, eldfast mót og leggið lasagneplötur ofan á. Setjið aftur smá ostasósu á plöturnar og síðan hakksósu yfir, leggið lasaganeplötur yfir kjötsósuna, síðan ostasósu og svona koll af kolli í 3-4 lög. Setjið lasagneplötu efst og svo ostasósu yfir. Rífið e.t.v. smá ost yfir efsta lagið og bakið við 180 gráður í 40-60 mínútur. Berið fram með hvítlauksbrauði og salati.
Kartöflukaka með grænmeti

500 g kartöflur
300 g gulrætur
1 lítill blaðlaukur, saxaður
3 egg
1 kúfuð matskeið hveiti
½ tsk. tímían eða basilikum
salt og svartur pipar
4 - 6 beikonsneiðar, saxaðar
2 tómatar, skornir í sneiðar
1 lítil gul eða rauð paprika, skorin í sneiðar
100 g rifinn mozzarellaostur

Flysjið kartöflurnar og gulræturnar, rífið á rifjárni eða í matvinnsluvél og setjið í skál. Blandið blaðlauknum, eggjunum, hveitinu og kryddinu saman við. Smyrjið 28 sm form og stráið beikonbitum í formið. Hellið kartöflumassanum yfir beikonið, sléttið yfirborðið og bakið við 200 gráður í 20 mínútur. Raðið tómat- og paprikusneiðum yfir réttinn og stráið rifna ostinum efst. Bakið í 10-15 mínútur og berið fram með salati t.d. úr rifnum gulrótum og hvítkáli.
Frönsk súkkulaðikaka

200g suðusúkkulaði
200g smjörlíki
3dl sykur
4dl egg (4 egg)
1dl hveiti
100g hestlihnetur

súkkulaði og smjörlíki brætt saman. Sykur og egg þeytt saman og svo er hveiti og hnetum blandað varlega saman með sleif auk brædda súkkulaðsins og smjörlíkisins. Bakað við 175°C í 40 mínútur.